Jón og Margeir ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var í Grindavík í upphafi árs 1992. Stofnendur og eigendur þess eru Jón Gunnar og faðir hans, Margeir Jónsson. Margeir hafði þá verið með rekstur undir eigin nafni frá árinu 1970, fyrst um sinn með vörubíl en fljótlega einnig kranabíl. Í dag eru enn gerðir út tveir öflugir og vel útbúnir kranabílar undir nafni Margeirs en merkjum og litum Jóns og Margeirs ehf. Með þeim eru hin ýmsu verkefni leyst af hendi fyrir afar fjölbreyttan hóp viðskiptavina þessara tveggja fyrirtækja.

Starfsemi Jóns og Margeirs ehf. hófst að sama skapi með einum bíl. Sá var með lokuðum flutningskassa enda félagið upphaflega stofnað með þá hugsjón að flytja sjávarútvegsafurðir á milli landshluta. Sú starfsemi fór ört vaxandi og í dag eru gerðir út alls tólf bílar, níu kælivagnar, tvær gámalyftur, átta malarvagnar, flatvagn og öflugur vélaflutningavagn. Árið 2015 fóru eigendur að horfa til betri nýtingar tækjakosts á ársgrundvelli og ákváðu þeir því að fjárfesta í jarðvélum. Sú eining innan félagsins hefur einnig dafnað vel undanfarin ár og hefur þar áunnist gott orðspor í jarðvinnuverkefnum fyrir sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklinga í Grindavík og nágrannabæjum.

Jón og Margeir ehf. eru til húsa að Seljabót 12 í Grindavík. Þar á félagið húseign sem skiptist upp í skrifstofu, verkstæði, þvottaaðstöðu og aðstöðu starfsfólks. Árið 2018 var ákveðið að ráðast í endurbætur og viðbyggingu við húsnæðiskost félagsins þar sem byggð var þvottaaðstaða fyrir tækjakost félagsins sem þó er aðskilin frá verkstæðinu. Á verkstæðinu er viðhaldi og viðgerðum tækja sinnt auk þess sem þar hefur verið starfrækt hliðarbúgrein, ef svo má kalla, frá haustinu 2019 en þá fjárfestu Jón og Margeir ehf. í bílalyftum og dekkjavélum og opnuðu dekkjaverkstæði fyrir allar stærðir og gerðir bíla. Með því jókst nýtingin á húsnæði og verkstæðismanni og hefur dekkjaverkstæðið fengið góðar viðtökur.

Við stofnun félagsins störfuðu einungis tveir starfsmenn hjá félaginu en starfsfólk er 20 talsins í dag. Starfsfólkið er reynslumikið og áreiðanlegt, hvort sem það er í flutningum, stjórnun vinnuvéla við jarðvinnuverkefni, á verkstæði eða skrifstofu. Hjá félaginu er lagður metnaður í að bjóða upp á áreiðanlega, fjölbreytta og lausnamiðaða þjónustu. Verkefni félagsins frá degi til dags snúa að því að þjónusta þau fyrirtæki sem lengi hafa verið í hópi viðskiptavina okkar. Staða félagsins er góð og mikil verkefni framundan bæði í flutningum, malbikun og jarðvinnu.