Á þeim rúmum 50 árum síðan Margeir Jónsson stofnaði rekstur kranabíla hefur hann áunnið sér einstakt orðspor fyrir fagmennsku og þjónustulipurð á sínum starfsferli. Kranaþjónustan hefur verið rekin undir nafni Margeirs Jónssonar ehf. frá upphafi en hefur verið undir merkjum og litum Jóns og Margeirs ehf. undanfarin ár. 

Margeir hóf rekstur með kaupum á einum vörubíl en í lok árs 1973 bætti hann kranabíl í reksturinn, en hann var af gerðinni Volvo FB86. Lengi vel var hann því með tvo bíla, vörubíl annarsvegar og kranabíl hinsvegar en í seinni tíð tvo kranabíla. Frá upphafi hafa bílarnir orðið fjórtán talsins í hans eigu og bæði bílarnir og kranarnir stækkað og orðið öflugri í tímans rás. Tveir kranabílar þjónusta viðskiptavini félagsins nú sem má með sanni segja að séu margir hverjir fyrir löngu orðnir fastakúnnar. Báðir þeirra eru af Volvo gerð, annar þeirra er Volvo FH16-650 frá árinu 2015 og er það 5-öxla bíll með yfirbyggingu frá TYLLIS og öflugum HIAB1058 krana. Hinn er Volvo FH16-550 frá árinu 2016 og er hann 4-öxla bíll með HIAB477 krana. Hann er einnig með yfirbyggingu frá TYLLIS og krókheysisbúnað að auki sem býður uppá fleiri möguleika í flutningum, til að mynda efnisflutning, bílaflutning og flutning á minni jarðvélum. Báðir komu þeir nýir til okkar og voru útbúnir eftir óskum feðganna Jóns og Margeirs. 

Verkefni fyrir kranabíla eru afskaplega fjölbreytt og unnið er mikið fyrir útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin í heimabyggð og nágrenni, byggingarverktaka, veitufyrirtæki og fyrirtæki í annarri starfsemi af ýmsum toga auk einstaklinga. Með bílunum er til allskonar útbúnaður sem komið hefur verið upp sérstaklega fyrir bátaflutninga, flutninga á stöðuhýsum og sumarbústöðum og svo lengi mætti telja. Við erum svo að sjálfsögðu einnig með körfur sem rúma einn til tvo menn, krabba til að moka jarðvegsefni og dreifa úr og annarskonar búnað sem hentað getur hverju verkefni fyrir sig. Möguleikarnir eru því að segja má nánast endalausir þegar kemur að kranavinnu.